Upplýsingar fyrir fagfólk

Tilvísanir

Við tökum einungis við nýjum skjólstæðingum í kjölfar tilvísunar frá lækni. Tilvísunin gegnir aðallega þeim tilgangi að upplýsa okkur um bakgrunn og þjónustuþörf skjólstæðingsins. Forgangsflokkun okkar byggist aðallega á upplýsingum sem fram koma í tilvísuninni og fylgigögnum hennar.

Einstaka sinnum höfum við tekið á móti skjólstæðingum í gegnum aðrar leiðir en samt óskað eftir tilvísun. Í þeim tilfellum erum við annað hvort að biðja um upplýsingar um bakgrunn sjúklings eða, ef við tökum inn skjólstæðing undir 18 ára, vegna niðurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands.

Við biðjum tilvísandi lækna að senda okkur rafrænar tilvísanir í gegnum Heklunetið (t.d. úr Profdoc Medical Office (PMO) eða Sögu). Ef það er ekki hægt má senda hana í gegnum Signet Transfer (senda tilvísun með Signet Transfer). Síðasta þrautavaraleið er að senda tilvísunina með pósti á pappírsformi. Vinsamlegast athugið að ef tilvísanir eru sendar sem ábyrgðarbréf sem við þurfum að sækja á pósthús munum við ekki sækja hana, heldur láta endursenda hana.

Verklag / samskipti

Allar tilvísanir sem okkur berast eru teknar upp á tilvísanafundi, en þeir eru jafnan haldnir vikulega. Beiðnin er metin út frá þjónustuþörf skjólstæðingsins. Ef við höfum möguleika á að taka málið að okkur er því raðað á biðlista eftir tegund þjónustu og í forgang eftir því hversu brýnt erindið er.

Öllum tilvísunum er svarað eftir tilvísanafund. Svarið er sent rafrænt til tilvísandi læknis.

Þegar við hittum skjólstæðinginn í fyrsta sinn tökum við við læknisfræðilegri ábyrgð á öllum geðvanda viðkomandi. Innifalið í þeirri ábyrgð eru lyfseðlar fyrir öllum lyfjum sem eru notuð við geðvanda og vottorð vegna hans (þ.á.m. veikindavottorð, örorka, endurhæfing). Við tökum almennt ekki yfir stjórn lyfjameðferðar við öðrum kvillum, jafnvel þó að viðkomandi lyf sé skilgreint sem geðlyf.

Við óskum eftir því að aðrir læknar gangi ekki inn í þá meðferð sem við veitum, hvorki með því að setja inn ný lyf, taka lyf út, breyta skömmtum eða endurnýja lyfseðla. Þetta gildir einnig um ritun læknisvottorða um geðvanda. Hversu góðir sem kokkarnir eru, er sjaldan gott að hafa fleiri en einn kokk í eldhúsinu á sama tíma. Ef mat læknis er engu að síður að rétt sé að grípa inn í  meðferðina óskum við eftir því að við séum upplýst um það með rafrænu læknabréfi.

Útskriftir

Við útskrift frá okkur er skjólstæðingi skýrt frá því að nú endi meðferð og eftirlit hjá okkur. Almennt er viðkomandi þá líka skýrt frá því hver sé meiningin að taki við. Lyfseðlar eru almennt gerðir til næstu sex mánaða og læknabréf með samantekt úr greiningu og meðferð sent til næsta meðferðaraðila, yfirleitt heilsugæslu.

Við útskrift lýkur meðferðarsambandi okkar við skjólstæðinginn. Við erum boðin og búin til skrafs og ráðagerða við nýjan meðferðaraðila, en bjóðum ekki lengur upp á ráðgjöf, lyfseðlaendurnýjanir eða aðra þjónustu við viðkomandi skjólstæðing. Ef til þess kæmi að þörf þætti á að við kæmum inn í málið að nýju þyrfti nýja tilvísun. Vegna fjöldra aðkallandi nýrra mála sem okkur berast getum við ekki tryggt að við tökum við málum, jafnvel þó að viðkomandi skjólstæðingur hafi verið hjá okkur áður.